Minningarsiða
Jarðaför |
Minningartal |
Nafnið
Baldur
Minningagrein
|
Myndir
|
Jarðsetning
23. janúar 2013
|
Ýmsu og mörgu á ég til að gleyma en okkar fyrstu kynnum gleymi ég aldrei.
Þegar ég nálgaðist Álakvíslina sá ég mann í gegnum eldhúsgluggann, sem
dansaði af lífi og sál. Þið Ragna voruð nýflutt þangað, þú dansaðir í
gegnum lífið og lést ekki mikið á þér sjá, þó að það væri stífur vindur
á móti.
Nú, þegar ég kveð þig í bili og hugsa til baka um þau rúm 28 ár sem við
þekktumst, er mér efst í huga þakklæti til þín. Ég fullyrði að ég væri
ekki sá maður sem ég er í dag nema fyrir þig og að þið Ragna buðuð mér
að flytja til ykkar í Álakvíslina þegar ég var ungur og mjög óþroskaður
unglingur. Fyrst var ég í gestaherberginu en ég var reyndar ekki lengi
að læða mér inn í herbergið til hennar Þóru. Það fyrsta sem ég lærði
inni á þínu heimili var að borða venjulegan íslenskan mat, annað var að
sækja um venjulega vinnu og sýna dugnað í vinnu, hvorugu hafði ég haft
áhuga á. Þriðja var að kynna mig fyrir hestum, ég var fljótur að fá
ástríðu gagnvart hestum og öllu sem þeim viðkom. Ég hef búið að því til
dagsins í dag. Það fjórða var að kenna mér að vinna með höndunum,
ótrúlegt hvað þú sýndir mér mikla þolinmæði í þeim efnum.
Fljótlega hófum við Þóra búskap og eignuðumst okkar drengi. Betri afa
gátu drengirnir mínir ekki fengið, alltaf voruð þið Ragna til í að passa
fyrir okkur. Best þótti drengjunum að koma til ykkar í Laugagerðisskóla,
þar var afi með sundlaug og allt. Þú sýndir þeim mikinn kærleika og ást,
alltaf til í að spila, segja sögur eða smíða með þeim. Seinna, þegar við
Þóra fórum í hestamennskuna, komstu ansi oft upp í hesthús til að
fylgjast með og gefa okkur góð ráð. Ragna lést árið 2007 og höfðu
flestir áhyggjur af þér, einum uppi í Borganesi. Þær áhyggjur voru
óþarfar. Þú áttir ekki í erfiðleikum með að finna þér verkefni, sjá um
morgungjafir, keyra eldri borgara og að spila félagsvist.
Um áramót 2008/09 taldi ég mig eiga erfitt símtal fyrir höndum, þegar ég
hringdi í þig til að segja þér frá skilnaði okkar Þóru. Skilningur þinn
var mér ómetanlegur, skilningur frekar en fordæming eins og ég hafði
búist við. Eftir þetta símtal breyttist okkar samband mikið, þó að
samband okkar hafi alltaf verið mjög gott, þá urðum við nánari vinir og
áttum mörg trúnaðarsamtöl. Ég kíkti reglulega upp í Borganes og við
spjölluðum yfirleitt saman í síma einu til tvisvar sinnum í mánuði. Við
gátum treyst hvor öðrum fyrir öllu. Að mörgu leyti höfðum við sömu
lífsskoðanir, þú talaðir mikið um að vera til staðar og að gefa sér tíma
fyrir sitt fólk, fordæmdir græðgi og sýndarmennsku. Aldrei heyrði ég þig
tala illa um annað fólk, talaðir frekar um að viðkomandi væri sérstakur.
Okkar hefð sl. 6 eða 7 ár var að borða saman skötu á Þorláksmessu, ég
mun sakna þess.
Með þessum fátæklegum orðum kveð ég þig, kæri tengdafaðir og vinur.
Þakka þér fyrir að bjarga ráðvilltum unglingi á sínum tíma og að hafa
stutt mig og mína í gegnum allt. Ég veit að það var beðið eftir þér á
hinum endanum, Palli búinn að leggja á tvo hesta, annar sennilega Sörli
og hinn Baldursgráni, svo hafa Guðný og Ragna tekið þér fagnandi.
Þinn tengdasonur,
Það er svo margt í minningunni um afa. Ástkær maður sem alltaf var í
góðu skapi og vildi öllum mjög vel. Hann gerði ekki upp á milli fólks og
sýndi öllum jafn mikinn áhuga. Síðast þegar ég talaði við afa barst í
tal handboltalandsliðið sem var á leiðinni á stórmót. Afi talaði þá
sérstaklega um einn landsliðsmann og hrósaði honum mikið. Þvílíkur
dugnaður í þessum strák, svona menn ná langt í lífinu, sem leggja hart
að sér og þú skalt muna það, Orri, að þú getur gert allt sem þig langar
til, þú verður bara að vinna fyrir því. Það er ekki tilviljun að þetta
voru síðustu orðin sem ég heyrði frá afa því svona var hann alltaf,
hvetjandi.
Það sem er mér efst í huga þegar ég hugsa um þig er að þú varst á góðu
hliðinni hjá öllum. Ég hef aldrei og mun aldrei heyra neinn tala illa um
þig. Í ásatrú er Baldur guð fegurðar og það á mjög vel við um þig.
Útgeislunin þín og sjarmi fór ekki framhjá neinum. Enda hugsa ég að það
séu ekki margir sem geta státað sig af því að hafa náð sér í kærustu,
komnir nálægt áttatræðu. Það eitt fannst mér segja helling um þig. Þú
ert flottasti maður sem ég hef og mun nokkurn tímann hitta. Það ættu
margir að taka þig til fyrirmyndar.
Ég man hvað mér fannst alltaf gaman að fá þig í heimsókn og ennþá
skemmtilegra að fá að heimsækja ykkur ömmu í sveitina og fátt fannst mér
skemmtilegra en þegar þú sagðir mér sögur, ég gat hlustað á þig segja
sögur tímunum saman. Ég gæfi það litla sem ég á til þess að fá að eyða
einu kvöldi enn með þér og hlusta á þig segja sögur.
Hvíldu í friði, elsku afi, ég sakna þín
þitt barnabarn.
Orri Einarsson.
Mig langar að skrifa hér nokkrar línur, sem heita má minningargrein til
afa míns eins og upplifið hann og hvernig mér fannst hann hafa áhrif á
aðra.
Baldur afi var sá frábærasti maður sem ég hef kynnst á ævi minni. Hann
hafði bara góðar hliðar og hann skammaði mig aldrei, ég hef aldrei séð
hann reiðan. Það skein af honum lífsgleðin og ég man eftir því hvað
öllum í kringum hann leið vel. Hann var líka svo fljótur að kynnast
fólki, einu sinni þegar vinkona mín kom til mín fór hann strax að tala
við hana og þau „bonduðu“ strax. Sýnir bara hvað afi var mikill
mannvinur.
Ég hef alla tíð verið mikill einfari og haft meira gaman af dýrum en
mönnum, átt lítinn vinahóp og liðið alltaf bara best heima hjá mér. Nema
hjá afa, þar gat ég verið heilu vikurnar. Afi hafði mikinn tíma fyrir
mig, honum fannst fátt skemmtilegra en að horfa með mér á dýraþætti og
risaeðluþætti á Ríkissjónvarpinu þegar ég var polli. Árin liðu og við
héldum þeirri iðju áfram. Þegar ég varð eldri og var ekki eins mikið
heima hjá afa hringdi hann stundum í mig til að segja mér að einhverjir
þættir væru að byrja svo að ég gæti verið tilbúinn fyrir framan kassann.
Ég sakna þess mjög mikið. Hann sjálfur var mikill dýravinur, aðallega
hestamaður, og fékk ég að heyra ótal sögur um hesta og hestaferðir sem
hann hafði upplifað í lífinu. Ég man eftir því að þegar ég fékk minn
fyrsta hest samdi hann ljóð um hann og mér þótti fáránlega vænt um það.
Mamma færði honum kött þegar amma Ragna dó því við héldum að honum myndi
þá ekki leiðast eins mikið. Hann skírði hana Díönu prinsessu og hugsaði
um hana eins og mannveru og bar miklar tilfinningar til hennar.
Afi var mikið fyrir að spila og kenndi mér að spila rommí, þrátt fyrir
að ég væri að lengi að læra fékk hann aldrei leið á því að kenna mér að
spila þótt þetta ætti ekki bara við mig. Þar sem krakkar voru kenndi
hann þeim að spila rommí, enda spila bæði börn og barnabörn og konur og
menn þeirra rommí. Ég var svo oft pirraður yfir því að ég skyldi aldrei
vinna, þá sagði afi. „Aron, þú þarft að vera svolítið meiri rebbi“ rebbi
þýðir að vera svolítið tækifærissinnaður og rólegur/þolinmóður, eins og
ég skildi það, og þetta eina orð hefur haft fáránlega mikil áhrif á mig,
að vera svolítið eins og refur. Eftir þennan lærdóm tókst mér að vinna
mikið af leikjum, meira að segja hann afa sem var snilld.
Allir eiga að skilið að eiga afa eins og Baldur. Afa fannst gaman að
segja brandara, þeir hefðu ekki verið fyndnir nema þegar hann sagði þá,
og það var líka best hvernig rödd hann notaði, ég hlæ upphátt þegar ég
hugsa til eins brandarans sem hann sagði mér og bróður mínum um síðustu
jól. Manni leið alltaf vel hjá honum, hann var eiginlega svona andlegur
leiðtogi í fjölskyldunni. Hann hafði tíma fyrir okkur öll. Ég sakna þín
mikið, afi, ég hefði viljað hafa þig lengur hjá okkur. Það var gott að
fá að kveðja þig í síðasta skipti og þú átt skilið að fá að hvíla þig.
Aron Einarsson
Elsku bróðir minn! Nú hefur þú lagt í þá löngu ferð, sem við förum öll,
þegar tími okkar er á enda hér á jörðu. Á þessari kveðjustund vakna
fjölmargar minningar frá liðnum árum. Sumar tengjast erfiðum stundum en
aðrar eru ljúfar. Þú varst alla tíð sá maður að standa sem hetja í
stafni á hverju sem gekk.
Ég minnist þess þegar við stóðum öll tíu systkinin, ásamt mömmu, við
kistuna hans pabba og presturinn flutti húskveðjuna í baðstofunni heima
á Sveinsstöðum, 1936. Það var okkur öllum erfið og þungbær stund. En
lífið er barátta.
Baldur var hress og fallegur drengur, afar dugmikill og ljúfur á allan
máta. Þegar Sigurjón bróðir og Anna, kona hans, tóku síðar við
Sveinsstöðum voru þau ákaflega ánægð með öll hans verk meðan hann dvaldi
þar. En margt fer öðruvísi en ætlað var, hvort heldur valda örlög eða
tilviljanir. Það atvikaðist svo að Baldur kom til Akureyrar 1953. Þar
tók ég hann sem minn fyrsta nema í húsasmíði. Baldur reyndist frábær
maður í öllum verkum og vann hjá mér um tuttugu ár. Hann vann bæði vel
og samviskusamlega og naut vinsælda og virðingar samstarfsmanna sinna,
enda vildu allir vinna með Baldri. Fjölmargir húseigendur óskuðu eftir
því að fá Baldur til verka því frískleiki hans, verksnilld og
ljúfmennska hrifu alla. Baldur var afar barngóður maður og mikill
dýravinur. Hestarnir skipuðu alltaf háan sess í huga hans og allir
málleysingjar hændust að Baldri, því hann var þeim bæði nærgætinn,
mjúkhentur og blíður.
Á ævi manna skiptast á skin og skúrir. Baldur mátti reyna mikla
erfiðleika í veikindum konu sinnar, Öbbu. En aldrei kiknaði Baldur og
gerði sem best hann gat. Hið sviplega fráfall sonar þeirra var
ógnarþungur baggi. En þá sem fyrr lét Baldur ekki bugast og vann sig
smám saman frá þessari miklu sorg. Hann horfði hnarreistur fram á veginn,
varðveitti minningu látinna ástvina og kunni ávallt að meta og njóta
þeirra gleðistunda sem lífið ber manninum í bland við baráttu og áföll.
Hann var sannur drengskapar- og mannkostamaður.
Þegar Baldur hitti Rögnu, seinni konu sína, fylgdu í kjölfarið bjartir
dagar og ótal gleðistundir. Hún féll því miður frá langt um aldur fram,
en Baldur átti vini í varpa, sem gerðu honum síðustu árin léttbærari og
deildu með honum gleði sinni og sorgum.
Að endingu kveðjum við Margrét þig hinstu kveðju og þökkum þér af alhug
samverustundir og drenglyndi þitt.
Þökk fyrir þennan vetur
þökk fyrir brosið þitt.
Þú hefur sól og sumar
sent inn í hjarta mitt.
(Höf. ókunnur)
...og samferðamannanna.
Börnum, fjölskyldu og aðstandendum öllum sendum við samúðarkveðju í
minningu þessa góða drengs.
Guð blessi þig, elsku bróðir.
Margrét Jörundsdóttir og Kristinn Sveinsson frá Sveinsstöðum.
Baldur og Magga vinkona hans komu við hjá okkur Guðrúnu í Hólaseli í
sumar. Baldur hafði með sér ístöð og beislisstengur sem hann gaf mér.
Hann vissi að þá þurfti að gleðja frændann sem var klénn framan af árinu
2012. Oft hafði hann hringt og spurði Guðrúnu: Hvernig líður frænda
mínum? Og fyrir jólin kemur hér jólakort eitt af mörgum skrifað fallegri
rithönd og innan í því er ljósmynd: Nei! Er það þá ekki mynd af langömmu
minni en ömmu Baldurs, Haraldínu Haraldsdóttur? Ég vissi ekki að það
væri til mynd af þessari konu. Sú er ekki yfirstéttarleg á myndinni. Í
lúinni kápu upp í háls. Með rammskökk gleraugu sem sitja á stóru nefi á
annars litlu andliti, nefið hefur komist í kynni við margan kuldann um
ævina. Og svo eru það hendurnar minnst þremur númerum of stórar fyrir
lítinn kropp; þrútnar og liðmótamiklar eftir ískaldan vatnsburð og
vosbúð í sjötíu ár. Mynd af henni var gaman að sjá.
Það var gott að sjá þau Baldur og Möggu frá Heinabergi í sumar. Það var
reyndar alltaf hlýja í kringum Baldur frænda minn sem hefði orðið
áttatíu og tveggja núna í apríl ef hann hefði lifað. Hann náði að lifa
lífinu lifandi til síðustu stundar.
Af Baldri hafði ég alltaf fregnir en aðallega frá 1953 þegar hann svaf í
tjaldi utan í Ölfushaug allt sumarið að byggja húsið á Grund með bróður
sínum pabba mínum. Svo kynntumst við í hestunum. Og seinna í partíum sem
voru og eru kannski enn ákveðin tegund af menningarsamkomum sem hafa
ekki verið rannsakaðar sem skyldi. Hann var lengi húsvörður á
Suðurlandsbraut 30; þar kom ég oft að sækja Nínu fyrri konu mína sem
vann þar með Baldri og fleira góðu fólki. Og allt í einu er Baldur
kominn í húsið að Segulhæðum og hann fellir heilan stofuvegg og opnar á
milli herbergja svo snyrtilega að það er eins og þar hafi aldrei verið
veggur. Og hann gengur frá klæðningu utan um heldur ófögur rör í
kjallaranum af sömu snyrtimennskunni. Þarna er verklagnin komin frá
Sveinsstöðum. Þaðan var Baldur, sjöundi í röð tíu systkina. Hann var
fimm ára þegar pabbi hans dó og átti þó tvo bræður yngri. Þau systkinin
frá Sveinsstöðum voru og eru fallegt fólk, verklagin, hyggin og glaðlynd.
Allt í senn. Þrjú eru nú eftir af þessum glæsilega hópi.
Í október 2011 datt okkur Guðrúnu í hug að kalla í systkinin sem eftir
lifðu þá og svo maka, ekkjur og ekkil. Það var gott að ná þeim saman og
að tala við þau dagspart.
Þegar Baldur er fallinn er höggvið skarð í tilfinningar mínar og okkar
allra. Hann hringir ekki aftur og spyr: Hvað er að frétta af frænda
mínum? En sá er þakklátur fyrir að hafa átt þennan góða frænda og vin í
föðurbróður sínum, Baldri Sveinssyni.
Dætrum Baldurs, Boggu og Þóru Björk, og öðrum niðjum, vinum og
fjölskyldum og Möggu sendum við Guðrún með þessum fátæklegu línum
samúðarkveðjur. Getum ekki einu sinni fylgt Baldri til grafar því við
erum fjarri erlendis þegar útförin fer fram, en við erum samt með honum
og hans fólki. Og verðum alltaf.
Svavar Gestsson
Gengum saman um sextíu ár,
Sáttur varstu, þótt fengir mörg sár,
Glitraði á hvörmum gleði- og tregatár,
Nú ertu farinn – minn frændi – nár.
Vildir hvorki vol né skvaldur,
Ljúfur gekk þessi örlagavaldur,
Æ varstu glaður, um þinn aldur,
Ávallt far vel – minn kæri, Baldur.
Frá fyrstu tíð hefur öðlingurinn Baldur verið stór þáttur í mínu lífi,
hvort sem var í leik eða starfi eða þá í hestamennsku, en hann hafði
mikið yndi af því að umgangast þessa fjórfætlinga og smitaði það
æskumann.
Ávallt hefur Baldur mætt, mildur og glaður í lund, þótt oft hafi
tilveran verið honum mótstæð, eins og t.d. við maka, sonar-, foreldra-
og systkinamissi. Minnisstæðar eru ófár löngu liðnar ánægju- og
gleðistundir við leik og störf, svo og ferðalög um grænar grundir og
úfin hraun. Fyrir allt þetta vil ég þakka þér, Baldur, og óska þér
góðrar heimkomu á ódáinsvelli eilífðar, þar sem birtan ein er öllu æðri
og ástvinir í hlaði. Fögur minning um mætan Daladreng lifir í brjóstum
eftirlifenda.
Rut og Friðgeir.
Baldur kom inn í líf okkar systkinanna fyrir fáeinum árum þegar þeim
mömmu varð vel til vina. Þau voru reyndar sýslungar og kynntust á
unglingsárum, en leiðir lágu ekki saman aftur fyrr en löngu síðar. Okkur
varð fljótt ljóst að Baldur væri einstakt ljúfmenni og húmoristi mikill.
Best var þó hversu jákvæð áhrif hann hafði á móður okkar og hversu
fallegt samband þau áttu. Ætíð kom hann til hennar með rauða rós og ófá
eru fallegu bréfin sem hann skrifaði henni. Margar góðar stundir áttu
þau saman og Baldur varð fljótlega einn af fjölskyldu okkar.
Það er mikill missir að góðum vini fyrir mömmu, en gleðin yfir því sem
þau áttu saman mun lifa. Við þökkum Baldri góð kynni og kveðjum með
söknuði.
Jenný, Svanur, Kristín og Steinunn.
Minn besta vin í dag ég kveð
og söknuðurinn nístir.
Þér ég vildi vera með
til endaloka lífs míns.
Síminn hljóður, horfinn ertu
faðmlög fæ ei framar blíð.
Í hjarta mínu ætíð sértu
elsku vinur alla tíð.
Brosandi með rós í hendi
oft á tíðum birtist mér.
Ástarkveðjur þér ég sendi
uns aftur síðar verð með þér.
Þín Magga.
Baldur Sveinsson var fjölfróður sagnamaður, listasmiður, glæsimenni á
velli og hvers manns hugljúfi.
Á kvöldvökum okkar á Sveinsstöðum naut ég þess að hlusta á þá bræður,
Baldur og Kristin, rifja upp æskuárin og bernskubrek sín.
Þeir ræddu um verklag og verkhætti, rifjuðu upp látna sveitunga og sögðu
sögur af þessu fólki fram á rauðanótt, fóru með vísur og kvæði, sungu
jafnvel, sögðu gamansögur, samtímasögu liðinna ára og þá var eins og
dregið væri frá sagnatjald og áheyrandinn steig á svið með þessu fólki,
kynntist því, fræddist um það og var stórum fróðari eftir en áður.
Þessar samverustundir með Baldri þakka ég af alhug.
Baldur var vörpulegur maður, hnarreistur, þrekinn á brjóst, hendurnar
sterklegar, handtakið þétt, brosið einlægt, augun sindrandi björt þegar
hann hló, röddin djúp og þýð. Ég tók snemma eftir því að Baldur var
mikill smekkmaður í klæðaburði og tónaði saman liti. Sundurgerð tíðkaði
hann ekki. Móðir mín sagði alltaf um Baldur: „Þetta er einn glæsilegasti
maður sem ég hef séð og sjentilmaður fram í fingurgóma.“
Hér kveðjum við sannan drengskaparmann með virðingu og þakklæti fyrir
þær samverustundir sem nutum með honum. Blessuð sé minning hans.
Haraldur G. Blöndal, María Aldís Kristinsdóttir og fjölskylda.
Vinur og félagi er kvaddur í dag, það eru erfið spor að horfa á eftir
svo góðum og kærleiksríkum manni sem hann Baldur okkar var, alltaf
tilbúinn að rétta fram hjálparhönd.
Kynni okkar hófust fyrir tuttugu árum og þá í gegnum sameiginlegt
áhugamál sem voru hestar, fórum við í margar ferðirnar saman og deildum
við hesthúsi til margra ára. það er ekki hægt að hafa betri mann í
kringum sig, rólegur, snyrtilegur og þægilegur í alla staði. Baldur var
góður smiður sem við fengum að njóta.
Hann kom og aðstoðaði okkur ár eftir ár í okkar sumarhúsi og þegar við
hringdum í hann fimmta janúar sl. og sögðum að við værum komin í
bústaðinn sagði hann „ég kem, hef ekkert þarfara að gera en að fá mér
kaffi með ykkur“. Eins og oft áður gekk hann út á pall og var farinn að
hugsa hvað þyrfti að gera í vor og sumar. Kallið kom viku seinna, en
eins og alltaf kvaddi hann og faðmaði okkur og sagði sjáumst fljótt
aftur.
Við munum hittast aftur, kæri vinur, megi minning þín lifa í hjörtum
okkar allra sem fengum að kynnast þér. Við vottum öllum aðstandendum
okkar dýpstu samúð.
Karl og Emilía.
Sá drekkur hvern gleðinnar dropa í grunn,
sem dansar á fákspori yfir grund.
Í mannsbarminn streymir sem aðfalls- unn
af afli hestsins og göfugu lund.
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.
Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann ríki og álfur.
(Einar Benediktsson.)
Elsku Baldur minn, þakka af alhug trausta og trygga vináttu, sem aldrei
bar skugga á. Ég mun geyma, sem fjársjóð, í hjartanu mínu, góðar og
skemmtilegar minningar.
Þú varst einstakt ljúfmenni. Ég sakna þín, kæri vinur, sofðu rótt og Guð
geymi þig á meðan. Ástvinum öllum, votta ég samúð mína.
Sigrún Sigurjónsdóttir. Í ágústbyrjun árið 1998 ók ég vestur í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi með þrjú börn og barnapíu. Ég hafði ráðið mig sem skólastjóra í gegnum tölvupóst og var að mæta til starfa við skólann. Þó að ég hefði ekki búist við móttökunefnd kom mér á óvart að hitta engan þegar ég renndi í hlað. Þegar ég gekk inn í skólann rakst ég á vinnandi mann; Baldur Sveinsson húsvörð, en hann var að mála skólastjóraskrifstofuna. Hann var fyrsti maðurinn sem ég kynntist í Laugargerði og líka sá allra besti. Baldur var Dalamaður eins og ég, og við vorum ekki lengi að rekja saman ættir og kunningsskap. Áður en langt um leið var mér og krökkunum tekið opnum örmum af Rögnu eiginkonu Baldurs og Aðalheiði kennara. Nú hefur allt þetta góða fólk kvatt jarðlífið og þau skilja eftir sig óuppfyllt skarð. Þau þrjú voru mínir bestu vinir í Laugargerði og studdu mig af heilum hug þennan vetur, þau voru alltaf til taks og gátu bókstaflega allt sem þau voru beðin um. Sem húsvörður var hann einstakur, fylgdist með öllu og gekk í öll störf sem þurfti. Ragna passaði dóttur mína, hún gerði við flíkur, saumaði gardínur og búninga á nemendur skólans, allt með bros á vor. Í minningunni var Baldur alltaf að, og Ragna líka þó að hún væri ekki starfsmaður skólans. Eftir veturinn flutti ég í Borgarnes en ekki leið á löngu þar til Baldur og Ragna fluttu þangað líka. Þau urðu nágrannar mínir og var samgangur allnokkur um árabil. Vináttan var ómetanleg. Ragna var snillingur á saumavél og gat ég leitað til hennar hvenær sem ég þurfti og Baldur var laghentur, smíðaði fyrir okkur sólpallinn og hjálpaði til við ýmis viðvik þegar vanda þurfti til verka. Því miður var hvorugt þeirra heilsuhraust og Ragna lést í mars 2007. Baldur upplifði mikla og djúpa sorg við fráfall hennar og átti við þrálátan heilsubrest að glíma í kjölfarið. Áfram héldum við þó góðum samskiptum og buðum honum stundum í mat, sérstaklega þegar til stóð að elda íslenskt lambakjöt. Baldur var ljúfmenni, hlýr, vingjarnlegur og barngóður. Hann gat verið stríðinn og sagði stundum sögur sem fengu okkur til að grípa andann á lofti en gerði svo lítið úr þeim og hló. Hin síðustu ár hafði Baldur eignast góða vinkonu fyrir sunnan og dvaldi minna í Borgarnesi en áður. Hann var ekki heima á aðfangadag svo ég læddi jólakveðjunni í póstkassann og sendi honum hlýjar hugsanir fullviss um að hitta hann á nýja árinu. Fráfall hans er okkur fjölskyldunni þungbært en við búum að góðum minningum um mætan mann. Ástvinum Baldurs sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.
Guðrún Vala Elísdóttir. Elsku Baldur minn, það er undarleg tilfinning að skrifa um þig minningarorð og að meðtaka að þú ert ekki lengur á meðal okkar. Baldur var einstaklega ljúfur maður og maðurinn hennar mömmu minnar í 25 ár, hann var ljúfur og góður við hana mömmu mína og okkur öll í fjölskyldunni. Barnabörnin mín kölluðu hann langafa og þann titil bar hann með rentu. Í nokkur ár hafa barnabörnin mín farið í Borgarnes að hausti til í Sauðamessu, það þótti orðið ómissandi að heimsækja langafa, taka þátt í rollurekstri og fá sér kjötsúpu úti við Skallagrímsgarð. Ég á svo ótal margar yndislegar minningar um þig og þá gleði og gæfu sem þú komst með í líf okkar. Þú varst einstakt ljúfmenni og það geta allir vitnað um sem þekktu þig. Okkur varð vel til vina og þú ert ein af þeim dýrmætu perlum sem ég hef kynnst á mínum lífsferli. Dásamlegt að fá að fylgjast með þér og mömmu í gegnum árin og hversu vel þið áttuð saman, samvera ykkar var einstök. Það var yndislegt að fylgjast með hversu vænt ykkur þótti um barnabörn hvert annars og dásamlegt að sjá hversu hænd þau voru að ykkur. Þær voru ótal ferðirnar sem ég fór í Laugargerði og átti með ykkur dásamlegar helgar við spil og notalegt spjall um lífið og tilveruna. Einnig þorrablótin sem ég dró vini mína á með ykkur í Lindartungu, böllin í Breiðfirðingasalnum og fleira, síðar allar heimsóknirnar í Borgarnes eftir að þið fluttuð þangað. Minnisstætt er síðasta ár mömmu á lífi en þá kom ég næstum um hverja helgi og við önnuðumst mömmu í sameiningu, þú varst henni svo ótrúlega góður og umhyggjusamur. Það sem var líka svo einstakt við þig/ykkur hvað allir vinir mínir löðuðust að ykkur og voru tilbúnir að koma með mér um allar trissur að heimsækja þig/ykkur. Við fórum einnig saman í nokkrar ferðir til útlanda og ég á margar góðar minningar þaðan. Ein er frá ferð okkar til Edinborgar og ég dró ykkur mömmu á dásamlega kínverskan stað og það sem kom á óvart var að þið höfðuð aldrei smakkað slíkan mat, kappið í mér við að panta fyrir okkur og kynna ykkur fyrir þessum dásamlega mat varð slíkt að við hefðum geta setið þarna í viku og haft nóg að borða, þið urðuð södd strax eftir forréttinn og eftir urðu allir aðalréttirnir. Við fórum einnig ótal ferðir til systkinanna í Svíþjóð og Noregi. Eina ferð fórum við saman ég og þú en það var í fermingu þríburanna hjá Maríu. Í þeirri ferð áttir þú afmæli, þann dag heimsóttum við Erlu og Jóhann og Erla útbjó handa þér dýrindis afmælismat og bakaði köku í eftirrétt. Það var yndislegt að fylgjast með þér núna síðustu árin, hafðir hitt dásamlegu konuna hana Möggu þína og ég veit að þið áttuð yndislegar stundir saman og vildi óska að þær hefðu orðið fleiri. Elsku Baldur minn, takk fyrir yndislega vináttu við mig og mína og þín verður sárt saknað. Elsku Magga, Bogga, Þóra, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.Votta ykkur mína dýpstu samúð og minningin lifi um yndislegan mann.
Ingveldur Jóna Gunnarsdóttir. |
|
© I.B. 2013 |